Nýtt efni…

… frá mér er hérna.

Í augnablikinu er ekki mikið þar, en nokkrar smásögur bíða birtingar. Það er ágætis byrjun.

Afsakið hlé

Jæja, það er kominn mánuður án þess að mér hafi einu sinni dottið í hug að setja eitthvað hingað inn.

Í þetta skiptið sýnist mér að árlegum bloggleiða, Twitter og Ári hinna lifandi dauðu hafi tekist að slökkva á þessari síðu.

Þetta byrjar örugglega aftur einhvertímann. Hefur alla vega gert það hingað til.

Sexy Dance 2

Ég gleymdi alltaf að setja þetta hérna inn í fyrra þegar að auglýsingarnar fyrir þessa mynd voru út um alla borg. Svona var unglingadansmyndin Step Up 2: The Streets þýdd á frönsku:

Ég ætla aldrei að sjá þessa mynd, af því að hún getur engan veginn verið jafn frábær og tímalausa snilldin í hausnum á mér. Sexy Dance 2 er einfaldlega besti kvikmyndatitill í heimi. Við getum hætt að reyna núna, mannkynið toppar þetta aldrei.

Twilight

Börnin læra það sem fyrir þeim er haft. Ég held að mamma hafi verið með eitthvað slíkt í huga þegar að hún talaði við konurnar á bókasafninu þegar ég var ellefu ára og sagði þeim að ég mætti taka hvaða bækur sem ég vildi, alveg sama um hvað þær væru. Ég er ekki alveg jafn viss um að hún hafi séð fyrir að ég myndi nota tækifærið til að lesa allar bækur Stephen King sem var búið að þýða yfir á íslensku. Ég var kannski ungur og þar af leiðandi vitlaus, en ég var búinn að sjá út að þó ég mætti ekki leigja The Shining á vídjó, þá fannst fólki allt í lagi að ég læsi bókina einn inni í herbergi og svæfi svo ekki í viku á eftir. Sjálfur held ég að þetta hafi ekki gert mér neitt nema gott, og ef ég eignast einhvertímann börn ætla ég að byrja að gauka Stephen King að þeim á svipuðum tíma. Þau verða alla vega áhugaverðari en allir hinir ellefu ára krakkarnir og munu hafa eitthvað til að tala um, fyrir utan hvað það verður fyndið að fylgjast með þeim fá ofsjónir af svefnleysi.

Auðvitað las ég eðlilegri hluti líka, eins og hverja einustu Bert bók sem var gefin út, enda alveg í markhópnum fyrir þá seríu, og nokkrum árum seinna bættust svo við hlutir eins og 1984 og A farewell to arms. Þó að þessar bækur séu talsvert ólíkar sín á milli, þá held ég að þær hafi kennt mér mjög mikilvæga lexíu: Eins skemmtilegt og það er að verða ástfanginn þá taka öll sambönd enda, reyndar á misbrútal hátt eftir hvaða bók maður miðar við, og oft vegna atburða sem að maður hefur enga stjórn á. Eins deprimerandi og þessi hugmynd hljómar þá vill svo til að hún er sönn, og þess vegna hollur og góður hlutur til að læra fyrir hvaða ungling sem er. Þessi hugmynd er hins vegar ekki eitthvað sem unglingar læra í dag, eða að minnsta kosti ekki ef þeir lesa Twilight.

Á síðustu tíu árum lærði heill haugur af krökkum að lesa af því að þau langaði að vita hvað kom næst fyrir Harry Potter, og maður hlýtur að spyrja sig hvað allir þessir krakkar eru að gera núna þegar að sú sería er búin? Strákar verða strákar, svo að þeir eru aðallega í fótbolta eða dópi, en stelpurnar hafa fundið nýjan bókaflokk til að týna sér í, það er Twilight. Um þessar mundir virðist Twilight flóðbylgja vera að skella á þjóðfélaginu og hún mun án efa hafa hörmulegar afleiðingar í för með sér; sterkir menn munu gráta á götum úti, glimmer verður nær ófáanlegt og dýrara en heróín, og engin verður unglingsstúlka með unglingsstúlkum nema að Twilight hafi lesið. Þetta eru allt seinnitímavandamál, og sem slík ber að hundsa þau þar til að þau springa í andlitið á okkur, svo að í dag ætlum við að einbeita okkur að kvikmyndinni Twilight sem er einmitt gerð eftir fyrstu bókinni úr samnefndum flokki.


Helena af Tróju var víst sjötta bjórs stelpa í samanburði við Bellu.

Aðalpersóna Twilight er Bella Swan, sem er 17 ára menntaskólanemi, og myndin hefst á snöggri upplesningu sem útskýrir að hún er skilnaðarbarn sem þarf að flytja til pabba síns af því að mamma hennar var að giftast aftur og vill frekar hanga með nýja manninum en henni. Svo að í staðinn fyrir að njóta sólarinnar og eyðimerkurinnar og Peyotekaktusanna í Phoenix, þá flytur Bella til pabba síns sem býr í smábænum Forks í Washington, þar sem er alltaf skýjað og þoka og það rignir næstum alltaf. Ofan á hættuna á beinþynningu vegna D-vítamínskorts af sökum of lítils sólarljóss þarf Bella líka að byrja í nýjum menntaskóla, sem er ógnvekjandi fyrir hvern sem er, og alls ekki auðvelt þar sem krakkarnir í nýja skólanum hafa þekkt hvort annað lengi.

Eða fyrir venjulegt fólk er það alla vega ógnvekjandi og strembið. Bella virðist aftur á móti hafa guðlega hæfileika til að láta fólki líka vel við sig, þrátt fyrir að gera aldrei annað en að standa kyrr og hlusta ekki á það sem fólk segir og horfa viðutan út í loftið. Ef hún væri önd, og það að láta fólki líka vel við sig væri að synda í vatni, þá væri hún einhversskonar undraönd, andagoðsögn á meðal anda, með yfirnáttúrlega hæfileika til sunds og doktorspróf í vökvadýnamík. Á sekúndunni þegar að Bella mætir í skólann í fyrsta skipti verður hún besta vinkona allra stelpnanna í skólanum, sem öfunda hana sko ekki neitt af því að hver einasti karlkyns einstaklingur í sjö mílna radíus verður undir eins svo ástfanginn af henni að hann fær berkla af þrá til hennar.

Ég er ekkert að grínast, fyrir utan pabba hennar og líffræðikennarann, þá er eina markmið hvers einasta karlmanns sem við sjáum á fyrstu 20 mínútum Twilight að henda öllu frá sér og eyða ævinni með Bellu, þrátt fyrir að hún hafi aldrei svo mikið sem sagt ,,hæ„ og eyði mestum sínum tíma í að standa kyrr og stara út í tómið. Hvers. Eins. Og. Einasta. Fyrir utan Edward Cullen. Hann er sætasti strákurinn í skólanum, sem allar stelpurnar eru skotnar í, en hann hefur engan áhuga á þeim og heldur sig mestmegnis með systkinum sínum. Ekki aðeins hefur hann engan áhuga á Bellu, heldur er hann frekar leiðinlegur við hana. Þar sem hann er fyrsta vitsmunaveran í alheiminum sem tekur henni ekki opnum örmum, þá verður Bella yfir sig hrifin af honum og getur ekki hætt að hugsa um hann og dreymir að hann vaki yfir sér og horfi á sig sofa á nóttunni.


Edward lætur lítið bera á sér.

Til að gera langa sögu stutta kemur í ljós að Edward sker sig alls ekki úr hópi allra hinna strákanna í Twilight, því að hann er sá þeirra sem er langhrifnastur af Bellu. Og hann er hundrað og eitthvað ára gömul vampýra, og hann var bara leiðinlegur við Bellu af því að hann þarf að lifa í felum ásamt fjölskyldunni sinni sem er samansett af öðrum vampýrum. Þrátt fyrir að vera hundrað ára gamall, sem þýðir að hann ætti að vera nokkurn veginn kominn með á hreint að lifa í felum, þá er Edward alveg hreint ömurlegur í að vekja ekki grunsemdir og láta lítið fara fyrir sér. Meðal þess sem hann gerir áður en að Bella áttar sig á því augljósa er að vera til skiptis vingjarnlegur og leiðinlegur við hana, segja henni að hann sé hættulegur og að hún ætti að halda sig fjarri, og hoppa á milli hennar og bíls sem hún hefði annars orðið fyrir og stöðva hann með höndunum einum saman. Nú er ég ekki ástsjúk unglingsstúlka, en engu að síður hefði ekkert þessara atriða minnkað forvitni mína á þessum föla en myndarlega og dularfulla manni.

Eins og ég sagði áðan er Edward vampíra, og atriðið þar sem hann segir Bellu það sem hún var búin að púsla saman sjálf er ágætis samantekt á öllu því sem er að Twilight: Bella byrjar á því að samþykkja að labba ein með honum út í skóg (hún var kú í sláturhúsi í fyrra lífi), þar sem þau fara eins og kettir í kringum heitan graut áður en að hann hleypur ógnarhratt (vampýrur geta það víst) með hana upp á fjallstind svo að hann geti staðið í sólarljósinu og sýnt henni hvað hann er í raun og veru. Akkúrat hérna fer vampýruhugmyndin svolítið út af sporinu, af því að Edward brennur ekki upp í sólarljósinu eins og dagblað frá því í síðustu viku, heldur glitrar hann í sólinni eins og að húðin hans væri þakin tugmilljónum lítilla demanta, eða glimmeri fyrir okkur sem hafa ekki aðgang að demöntum. Var ég búinn að minnast á að þetta er mynd fyrir unglingsstelpur?

Hvað með það, að glimmerregninu loknu fær Bella tvo boðsmiða á byssusýninguna: Edward rótar upp nokkrum trjám með berum höndum og hleypur um hraðar en augað greinir í alveg ótrúlega andvana tilraun til að hræða Bellu frá sér. Eða það var alla vega markmiðið samkvæmt frænku minni sem las bókina. Ég geri ráð fyrir að kaflaheiti þessarar senu í bókinni sé ,,Atriðið í skóginum þar sem Edward reynir að hræða Bellu frá sér,„ af því ég sá alla vega ekki neitt á skjánum sem benti í þá átt. Auðvitað mistekst þessi byssusýning hrapalega, eða heppnast prýðilega eftir hvernig á það er litið, og þau Bella og Edward verða yfir sig ástfangin sem þau sýna eins og allir 17 ára unglingar: Með því að liggja kyrr í grasinu og skiptast á merkingarfullum augngotum og segja ekki neitt af því að þau þurfa þess ekki, og taka ekki svo mikið sem í höndina á hvort öðru og kyssast ekki og stunda ekki óábyrgt kynlíf eins og þeim væri borgað fyrir það. Á meðan að öllu þessu stendur ekki hringsólar myndavélin yfir þeim tveim og strengir leika undir, en það mun endurtaka sig ítrekað þaðan í frá.


Alveg góð tuttugu prósent af Twilight samastanda af skotum eins og þessu.

Stór galli á Twilight eru persónurnar í henni, sem eru undantekningarlaust svo óáhugaverðar að ég fæ endurteknar martraðir um að festast með þeim í lyftu. Krakkarnir í menntaskólanum eru bara á staðnum til að Bella og Edward séu ekki ein í tímum, foreldrar Bellu eru mannlegar hlutleysur sem láta allt ganga yfir sig, og fjölskyldan hans Edwards er ein þreytt steríótýpan á fætur annarri. Að lokum eru þau tvö ekki mikið skárri, því Bella er persónugerving tómsins sem Nietzche talaði um og fyrri helming myndarinnar spilast Edward sjaldan öðruvísi en óþolandi fáviti sem laumast inn í herbergi stelpna á nóttunni og horfir á þær sofa (það var víst ekki draumur hjá Bellu). Ég er samt tilbúinn að horfa í hina áttina með Edward, af því að um leið og maður hugsar um Groundhog Day-legt líf hans getur maður ekki annað en haft samúð með honum, af því að þetta er maður sem er búinn að vera í menntaskóla í hátt í hundrað ár. Nú leiddist mér svo sem ekkert í menntó, en það er ekki til nógu langt reipi í öllum heiminum til að draga mig upp úr nýhilismaholunni sem ég væri sokkin ofan í ef ég hefði þurft að taka Félagsfræði 103 í eitt hundrað ár. Eins og Edward væri ég örugglega líka farinn að laumast inn til stelpna og horfa á þær sofa á nóttunni, jafnvel þó ég hefði enga af vampýrueiginleikum hans og sé með ofnæmi fyrir glimmeri.

Venjulega er ég alveg tilbúinn að gefa myndum séns ef þær klikka annað hvort á persónunum eða söguþræðinum, á meðan að þær skila hinu á meðan. Til að taka einhver dæmi þá hef ég bæði mjög gaman af Factotum og The Core, þrátt fyrir að önnur hafi gott sem engan söguþráð til að tala um og að maður gæti alveg eins skipt persónunum úr hinni út fyrir spýtukalla. Twilight klikkar hins vegar á báðum atriðunum, því ef eitthvað er óáhugaverðara en persónurnar í henni þá er það söguþráðurinn. Í stuttu máli er hann einfaldlega ekki til staðar í fyrri helmingi Twilight, sem gengur út á að Bella og Edward grípa hvort annað ekki og kysstast ekki á ástríðufullan hátt og þreifa ekki á hvort öðru eins og venjulegir unglingar, en í seinni helmingi myndarinnar sér söguþráðurinn að sér og áttar sig á því að hann vill halda sambandi við persónurnar á skjánum og vill ekkert meira en vera partur af lífi þeirra, eins og helgarpabbi sem meinar vel en reynir of mikið. Þannig að á síðustu 50 mínútum myndarinnar er brunað í gegnum atburðarrás sem virkar mjög þvinguð og kjánaleg, af því að eftir öll merkingarþrungnu skotin af Bellu og Edward að horfa á hvort annað undir strengjaleik (Twilight yrði 20 mínútum styttri ef þau væru klippt út) var einfaldlega enginn tími eftir til þess að stilla upp áhugaverðum aðstæðum eða árekstrum.


Söguþráðurinn dró þetta fólk heim um miðja nótt, lyktandi af gini, og lét okkur dansa fyrir það úti í horni fyrir þjórfé.

Allt þetta er samt ekki það versta við Twilight. Þetta er arfaslök mynd, sem ég mun ekki einu sinni horfa aftur á drukkinn til að gera grín að henni á meðan, en það versta við hana eru ekki Tómið og Glimmermaðurinn, eða söguþráður sem ætti að sjá sóma sinn í að skríða undir pall og deyja, heldur hvaða áhrif hún mun hafa á börnin. Ætlar ekki einhver að hugsa um börnin? Eins og ég sagði í upphafi þá finnst mér ekkert að því að láta óharnaða unglinga lesa Stephen King og horfa á hvaða hryllingsmyndir sem er, af því að í þeim er ekkert sem getur virkilega fokkað upp lífinu þeirra. Ókei, unglingarnir sofa kannski ekki svo vel nóttina á eftir, en það er hverjum manni hollt að missa smá svefn einstaka sinnum. Aftur á móti myndi ég aldrei leyfa nokkrum unglingi að horfa á Twilight, af því að henni er ástin sýnd sem fyrirbæri sem er þrungið merkingu og tilgangi og er sérstakt á einhvern hátt, eins og að það sé til einhver ein manneskja í heiminum sem sé sköpuð fyrir mann einan. Ég hef eytt nokkrum árum í að neita sannleiksgildi allra hugmyndanna í síðustu setningu, sem hefur fært mér ótrúlegt frelsi og hamingju, og mér hreinlega blöskrar að sjá þessar skoðanir viðraðar svona fyrir auðtrúa augum þegar að raunveruleikinn á ekkert skylt við þessa tálsýn.

Auðvitað vill fólk leyfa börnunum sínum að vera börn eins lengi og hægt er og hlífa þeim við óréttlæti heimsins, en það eru takmörk fyrir hversu lítið maður getur sagt krökkum um heiminn ef maður vill að þeir verði ekki fyrir losti þegar að þeir mæta honum loksins í fyrsta skipti. Að leyfa óhörnuðum unglingum að horfa á Twilight er eins og að segja litlum börnum að það sé allt í lagi að taka við sælgæti af ókunnugum mönnum eða að kjósa Framsóknarflokkinn: Rangt á alla vegu og verður aðeins til þess að þeir verða holar mannlegar skeljar vegna misnotkunar þegar að fram líða stundir.

:: ÁR HINNA LIFANDI DAUÐU ::

Ég skammast mín ekkert fyrir að öll þessi færsla er eitt stórt plögg fyrir Ár hinna lifandi dauðu, þar sem ég skrifa svipaðar færslur í hverri viku um nýlegar hryllingsmyndir. Ef þú hafðir gaman af þessu, þá hefurðu örugglega gaman af Ári hinna lifandi dauðu líka.

Venjan þar er að enda hverja færslu á trailernum fyrir næstu mynd. Í þetta skiptið er auðvitað engin næsta mynd, en mér þætti synd að víkja út frá hefðinni, þannig að í staðinn býð ég upp á slideshow (það er því miður ekki til myndband) við lag Atómsstríðsskáldsins og Amazonprinsessunnar Sarah Michelle Gellar, ,,Teen horniness is not a crime„, af því að mér finnst boðskapur þess sérdeilis prýðilegt mótvægi við skírlífspredikunum Twilight.

Fjórar plötur sem þú ættir að vera að hlusta á …

… ef þú ert ekki búinn að því nú þegar.

#1 :: Harvey Milk – Life… The best game in town [2008]

Sumar plötur eru bestu vinir þínir og gefa þér blóm og hvísla litlar sætar merkingarleysur í eyra þitt. Life… The best game in town kemur óboðin heim til þín, drekkur allt áfengið þitt, og reynir svo við ættingja þína, en samt tekurðu hana alltaf í sátt aftur. Þetta er plata sem þarf margar endurteknar hlustanir, eins og De-Loused in the comatorium gerði á sínum tíma, en rétt eins og með meistaraverk Mars Volta muntu aldrei sjá eftir einni einustu mínútu sem fer í að hlusta á hana. Þess virði að hlusta á bara fyrir óviðeigandi Bítlatilvísunina í lokin á fyrsta laginu.

#2 :: Ghinzu – Blow [2004]

Ég held að þessi plata sé það næsta Six með Mansun sem maður kemst án þess að fara út í jafn skrýtið framleiðsluferli og hún. Nei, þetta er ekki jafn góð plata og Mansun platan, enda er nær ómögulegt að toppa þá snilld, en Blow er progguð, áhugaverð, melódísk þegar hún vill vera það, og hendir á köflum klassískum píanóleik með. Ekkert lag af henni yrði spilað í útvarpi, en í heild sinni er hún frábær.

#3 :: The ghost of a thousand – This is where the fight begins [2007]

The ghost of a thousand eru reiðustu ungu menn sem ég hef heyrt í frá því að ég hlustaði fyrst á Gavin Portland, og þeir ná næstum því að jafna Þóri og félaga. Öll platan er ótrúlega þétt, full af grípandi lögum (ef að hugmynd þín um grípandi er eitthvað sem veldur flogaveikisköstum fyrir framan spegla), og akkúrat nógu löng til að mann langi í meira þegar að hún klárast.

#4 :: … and you will know us by the trail of dead – The century of self [2009]

Eina platan sem ég ætlaði að láta ykkur finna sjálf, af því að hún er nýkomin út og það er ekkert mál, þar til að ég fór að pæla í hvort að þið mynduð finna hana yfir höfuð ef að hún væri ekki hérna með hinum. Sem væri ekkert nema synd. Á meðan að The century of self er aðeins minna aðgengileg en So divided frá 2007, þá er The century of self sérdeilis prýðilegt framhald þeirrar plötu, og lög eins og ,,Fields of coal„ og ,,Insatiable two„ lyfta plötunni á hærra plan og láta mann söngla brot af henni daginn út og inn.

Ammó

Pabbi var að benda mér á að bjórinn á 20 ára afmæli í dag. Það verður að fagna því. Verst að ég kemst ekki í neitt annað en eitthvað franskt sull. O jæja, það er þó skömminni skárra en breskur bjór, sem er venjulega bara 4%. Mér finnst mesta furða að breskar fótboltabullur komist á almennilegt drykkjuæði, þeir hljóta að byrja að hella þessu vatnslíki í sig eldsnemma á morgnanna til að verða orðnir góðir þegar að leikurinn byrjar.

Ég veit ekki hvort okkur er einhver greiði gerður með því að segja fólki frá því að bjór hafi verið ólöglegur þar til fyrir tuttugu árum. Frakkarnir sem ég þekki hafa nú þegar nokkuð spes ímynd af landinu – það er þeir vita af miðnætursólinni, fylleríunum og Björk – án þess að maður fari að hlaða þessu þar ofan á. Alla vega hefur fólk hingað til ekki brugðist öðruvísi við þessum fréttum en með því að stara á mig í smástund og bakka svo rólega í burtu.

Það eru samt til svipað skrýtnar pælingar í öðrum löndum. Um daginn fékk ég að vita að þar til á sjötta eða sjöunda áratugnum fengu háskólaprófessorar í Kólumbíu borgað í kössum af þjóðarbrugginu þeirra, sem ég man ekki lengur hvað er, og þurftu svo að prútta því fyrir mat og öðrum slíkum nauðsynjum.

Svona er lífið deprimerandi. Jafnvel þegar að maður velur rétta starfsframann þá eru nokkrir áratugar síðan að góðærið kláraðist.

Vídjótækið stoppar og spólar til baka

Í kvöld komst ég að því að það verður ekkert á milli mín og kólumbísku stelpunnar. Mér finnst freistandi að skrifa eitthvað af því á að hún klikkaði á stóru prófi í vikunni og fer þess vegna aftur heim miklu fyrr en hún hélt, en sannleikurinn er örugglega nærri því að hún fílaði mig ekki þannig. Það er allt í lagi. Það er fullt af fólki í heiminum, og meirihlutinn af því á aldrei eftir að fíla mann þannig.

Á meðan að ég vissi þetta ekki hafði ég gaman af hnútnum í maganum sem ég fékk rétt áður en að ég hringdi í hana og hvernig mér leið þegar við heilsuðumst og föðmuðumst úti á torgi og hvernig hún tók öllum fréttum með stóískri ró. Ég hafði gaman af öllu þessu og meiru og ég geri það ennþá. Þetta er einfaldlega alltaf ein möguleg útkoma þegar að maður tekur áhættu og reynir að kynnast nýju fólki.

Og hvað nú? Núna spólar maður til baka og byrjar aftur á alveg sama hlutnum á morgun. Það er alltof gaman að hitta fólk og verða spenntur fyrir stelpu og halda að hlutirnir geti kannski gengið upp í þetta skiptið til þess að hanka sig á því að þeir hafa aldrei gert það áður. Þangað til að þeir gera það er best að hugsa til Daniel Johns, og muna að stelpur lýsa upp líf manns eins og pólýesterhattar sem bráðna í sólinni.

Skínandi hamingjusamt fólk

Það er júní. Við sitjum á rúminu hennar um miðjan dag. Á veggjunum eru plaggöt af rokkstjörnum og fæturnir okkar hvíla á milli óheinna fata á gólfinu. Hún er að spila á gítar með nælonstrengjum. ,,Ég á ekki stillitæki, en ég man nokkurn veginn hvernig E er og stilli út frá því,„ sagði hún á meðan hún stillti gítarinn áðan. Hún slær hægri hendinni hikandi á strengina og nær ekki alveg að skipta um hljóma í tæka tíð af því að hún er nýbyrjuð að læra. Hún syngur með, en lágt eins og að hún skammist sín fyrir röddina sína. ,,Þú syngur vel,„ segi ég þegar að hún klárar lagið og meina það. Hún fer hjá sér og segir takk og horfir niður og ég sé í augnhárin hennar yfir gleraugnaumgjörðina. Hana langar ekki að spila fleiri lög og stuttu seinna kveð ég og fer.

Það er apríl. Vinir okkar týnast framhjá tröppunum sem við stöndum á og reyna að syngja á meðan. Það er byrjað að hlýna svo að við erum í peysum og léttum úlpum þrátt fyrir að það sé langt gengið á nóttina. Mér langar ekki í annan bjór eftir Strohskotin sem við vorum að taka og við þurfum að vakna snemma á morgun. ,,Heldurðu að þú munir eftir þessu á morgun?„ spyr ég. Hún svarar nei og ég kyssi hana og við göngum heim með öllum hinum. Ég man ekki eftir kossinum daginn eftir, en hún minnir mig á hann nokkrum vikum seinna.

Það er júlí. Ég útskrifast á morgun og ég er á bar með vinum mínum. Við ætlum að vera þunnir í útskriftinni af því að okkur finnst út í hött að vera útskrifaðir í sömu athöfn og allar hinar námsgreinarnar. Það er nýbúið að banna reykingar og ég fylgi reykingarmönnunum út í lítið port á bakvið. Við setjumst niður við hliðina á öðrum hópi af fólki. Ég er sá eini sem reykir ekki við okkar borð, og á næsta borði er stelpa sem reykir ekki heldur. Hún er með dökkt slétt hár og gleraugu. Við spjöllum fram á nótt þangað til að ég segist þurfa að mæta í útskrift eftir nokkra tíma og ég fæ númerið hennar. Áður en ég sofna skrifa ég nafnið hennar á blað og geri stóra hringi í kringum það.

Það er mars. Við höfum hist tvisvar eða þrisvar áður en í kvöld en við höfum aldrei spjallað mikið saman. Hárið hennar hylur brosið á andlitinu næstum því á meðan hún færir sig upp og niður. Ég held um mittið hennar og reyni að færa mig með straumnum. Seinna liggjum við samantvinnuð og hún sefur og ég finn ilminn af hárinu á henni og ég vildi óska þess að við værum ekki heima hjá mér svo að ég gæti farið. Um morguninn get ég ekki búið til kaffið sem að hún biður um af því að einhver tók síuna af pressukönnunni minni. Þegar að hún fer kyssi ég hana bless í dyrunum og fer aftur að sofa.

Það er desember. Ljóskastarar lýsa upp ráðhústorgið og dimma stjörnurnar yfir okkur á meðan minni ljós varpa myndum á ráðhúsveggina. Strákur sem er nýbúinn að læra að lesa staulast í gegnum sögu fyrir mannfjöldann á meðan ljóskastararnir teikna myndir á veggina. Í miðjum fjöldanum þar sem enginn sér tek ég í höndina á henni. Hún horfir áfram á sýninguna á veggjunum en losar smátt og smátt um fingurna og læsir þeim við mína og andardráttur okkar kristallast í köldu loftinu og flýtur á milli ljósanna. Eftir kvöldið sé ég hana einu sinni í viðbót og svo aldrei aftur. Þó að mig gruni núna að þetta endi þannig veit ég það ekki ennþá.

Það er janúar. Ég geng hratt eftir hellulögðu þröngu götunum í gamla bænum af því að ég er seinn. Ég er í vettlingum en samt eru hendurnar í vösunum á frakkanum mínum. Það er ekki fyrr en að ég kem á torgið og horfi á þurran gosbrunninn og styttuna af byltingarhetjunni sem að ég átta mig á því að ég man ekki hvernig hún lítur út. Við hittumst í partíi um síðustu helgi. Ég var drukkinn og ég man að hún var áhugaverð og skemmtileg og að ég fékk númerið hennar. Þegar ég hringdi sagðist hún ætla að hitta mig hér en ég hef ekki hugmynd um hvernig hún lítur út. Ég geng rólega í kringum gosbrunninn og horfi í kringum mig. Við brunninn stendur dökkhærð stelpa með axlarsítt hrokkið hár sem brosir þegar að hún sér mig. Ég brosi á móti og hún gengur til mín og heilsar mér með kossi á kinnina. ,,Jæja,„ segir hún, ,,hvert langar þig að fara?„

Live to dance another day

Stelpan sem ég ætlaði að fara að dansa með var að segja mér að hún kæmist ekki í kvöld.

Fjandinn. Ég var farinn að hlakka til að gera mig að fífli.

Ojæja. Bjór og rokktónleikar með Aurelian í staðinn. Þangað til: Bjór og Bruce Campbell. Svo púlla ég Liz Lemon á morgun og beila á þessum whittling IHOP monkeys og fer til Madríd.

Lemon out. *hendir míkrafóninum í gólfið*

Ég gæti alveg eins keppt við eskimóa í ísveiði

,,Jæja, hvað segirðu Gunni? Á að gera eitthvað á morgun?„

,,Já, ég ætla að kíkja aðeins út með stelpu.„

,,Nú? Einhver rómantík, eða?„

,,Tja, það er aðeins of snemmt að segja til um það. Vonandi samt, hún er mjög skemmtileg. Og sæt.„

,,Já flott. Hvað ætlið þið að gera? Fara á kaffihús?„

,,Nei, við erum búin að gera það einu sinni eða tvisvar. Við ætlum að fara á salsakvöld niðri í bæ.„

,,Nei? En skemmtilegt. Ég vissi ekki að þú kynnir að dansa salsa.„

,,Nei. Nei, ég kann það ekki.„

,,Hvað, alls ekki?„

,,Neibb. Ég er Íslendingur. Ég geri luftgítar.„

,,Jú jú, ég þekki það svo sem. Þetta gæti samt alveg reddast, ég meina, kann hún eitthvað frekar að dansa salsa?„

,,… hmm?„

,,Kann hún salsa?„

,,Sko… tja, pff… hún er eiginlega frá Suður-Ameríku.„

,,Einmitt það já. En pikkarðu þetta ekki bara fljótt upp?„

,,Umm… það er ekkert víst. Í fyrsta skipti sem ég prófaði eitthvað svona missti ég stelpuna á gólfið.„

,,Það kemur nú fyrir besta fólk. Er það ekki eitthvað sem gerðist bara nýlega?„

,,Nei. Það eru eiginlega sex ár síðan.„

,,Já, já. Og hefur þér ekki farið fram síðan?„

,,Jú! Jú, jú. Ég missi ekkert allar stelpur sem ég dansa við núna.„

,,Ég skil. Leyfðu mér aðeins að fá þetta á hreint: Þú ert spenntur fyrir stelpu þannig að þú ætlar að heilla hana með því að fara með henni að dansa salsa, þrátt fyrir að þú getir varla gengið á milli stóla án þess að missa jafnvægið og að hún hafi á meðan fengið taktinn í vöggugjöf?„

,,Já. Svona í hnotskurn alla vega.„

,,Þú ert fífl. Vissirðu það?„

,,Já.„

———————

Einhvern daginn ætla ég að byrja að halda dagbók yfir hvernig ég kem mér eiginlega í svona aðstæður. Eftir þúsund ár geta siðmenningar framtíðarinnar grafið hana upp og lært að halda bara kjafti.

Leitarorð af google og þú

WordPress heldur utan um leitarorðin sem fólk notar til að finna síðuna manns á google (eða öðrum leitarvélum, ef viðkomandi býr undir steini). Hérna eru nokkur þeirra orða sem fólk hefur notað til að finna þessa síðu:

fail
limastærð
læra að binda bindi
nauðga
lopapeysur
hrópmerkt+frumþáttur
ivory coast abidjan „regina scott“
fleigbogar
sparakstur
flugdrekar
yrt heilasvæði
loftdælur brúnku
stundin okkar svört stelpa
gervipálmatré
í sturtu
vhs myndin valhöll

Góðu fréttirnar eru að þetta veitir heillandi, ef snarbilaða, innsýn inn í netnotkun fólks í daglega lífinu. Vondu fréttirnar eru að síðan mín dúkkar upp í undarlegustu leitum (,,stundin okkar svört stelpa„?), sem hlýtur að segja eitthvað um mig sem höfund hennar.

Klár sigurvegari þessa alls saman er svo auðvitað ,,ivory coast abidjan „regina scott“„. Ég get engan veginn ímyndað mér hverju sá sem sló þessi orð inn var að leita að, eða hvernig í ósköpunum það leiddi hann á síðuna mína, en ég óska viðkomandi góðs gengis í öllum þeim google-leitum sem hann mun taka sér fyrir hendur í framtíðinni. Hipp-hipp-húrra.

Smá heimaverkefni handa ykkur

L’enfer, c’est les autres. [Helvíti, það er annað fólk.]
– Huis Clos, Jean-Paul Sartre

Maður er manns gaman.
– Úr Hávamálum

Ræðið.

Kannski seinna. Þangað til: Harvey Milk

Einn af kostunum við að eiga ástarlíf sem er best lýst með orðunum ,,post-apocalyptic wasteland„ er að maður verður nokkuð ónæmur fyrir höfnunartilfinningum. Sem er mjög gott, því þá dregur maður ekki að óþörfu að láta stelpur vita hvað maður vill og þannig sparast rosalegur tími sem færi annars í stigvaxandi rugl sem leiddi ekki neitt.

Fyrir sirka tveim vikum hitti ég kólumbíska stelpu í partíi. Við spjölluðum aðeins og skiptumst á númerum og höfum hist aðeins síðan þá. Ég fíla hana. Hún er klár, fyndin og alltof sæt fyrir mig, en á meðan hún veit það ekki gæti þetta virkað og það er enginn séns að ég ætli að benda henni á þennan fegurðarmun.

Hún kom í risastóra kveðjupartíið sem við héldum fyrir einn húsfélagann í gær, og við fórum á kaffihús áðan og spjölluðum um mikilvæga hluti eins og bíómyndir og ferðalög. Síðan þurfti hún að fara og við gengum niður eftir götunni og kvöddumst og ég sagði henni að mig langaði að kyssa hana. Hún brosti og sagði ,,Nei, ekki ennþá,“ og gekk í burtu.

Ég elska þetta. Ég hef enga hugmynd um hvað þetta þýðir og það gæti vel verið að það gerist ekkert á milli okkar héðan í frá, en þetta er í fyrsta skipti sem eitthvað líkt þessu er sagt við mig. Mér finnst alltof gaman þegar lífið kemur mér á óvart.

Talandi um að lífið komi manni á óvart, þá hef ég ekki getað hætt að hlusta á Life… the best game in town (ýttu á hlekkinn til að ná í plötuna) með Harvey Milk síðasta mánuðinn eða svo. Sumar plötur láta manni strax líða vel, og sumum plötum þarf maður að kynnast áður en þær smella. Að hlusta á Life… the best game in town í fyrsta skipti er álíka huggulegt og að vera barinn af nýnasistum.

Síðast leið mér svona þegar ég hlustaði á plötu þegar De-Loused in the comatorium með Mars Volta kom út. Life er alveg á sama skala. Maður veit aldrei hver fjandinn á eftir að gerast næst á henni, maður veit bara að það verður frábært. Ef þú heldur að það væri hægt að fá þig til að hætta við að fremja sjálfsmorð með því að sýna þér eitthvað sem að kæmi þér á óvart, því að þá myndirðu sjá að lífsleiðinn þinn er ekki jafn alger og þú hélst, þá mæli ég með því að þú hlustir ekki á Life heldur gangir alltaf með eintak af henni á þér. Einhvern daginn gæti það sannfært þig um að lífið hafi ennþá eitthvað að bjóða.

Lopapeysur og bólusótt

Ensku landnemarnir í Ameríku í gamla daga kunnu þetta. Jú, það voru einhverjir indiánar þarna á undan þeim, en það var ekkert mál. Bjóðum þá velkomna í mat, spjöllum smá, og gefum þeim nokkur teppi að skilnaði.

Ef að teppin komu frá bólusóttarsjúklingum og ullu manndrepandi faröldrum hvar sem þau komu niður, þá var það auðvitað óviljandi misskilningur. Og ef að indiánarnir gátu ekki varist innrás Englendinganna fyrir þessum faröldrum, þá var það auðvitað ekkert annað en tilviljun. Kemur fyrir besta fólk.

Auðvitað eru svona hernaðarbrögð ekki neitt sem siðmenntað fólk stundar í dag, og eru sér í lagi ekki neitt sem Íslendingum dytti í hug að gera. En með þetta í huga hlýtur maður samt að spyrja sig… hvaðan koma lopapeysurnar sem er verið að senda til Bretlands núna?

Southland Tales

Í kvöld tókst mér loksins að klára að horfa á Southland Tales, sem er nýjasta mynd Richard Kelly, sem margir þekkja sem leikstjóra Donnie Darko. Ég þurfti þrjár tilraunir til að komast gegnum Southland Tales. Að segja að þetta sé erfið mynd er mjög ónákvæmt, því erfiðar myndir hafa einhverja heilsteypta sögu til að segja. Hver fjandinn gerðist þarna veit ég ekki.

Southland Tales er án efa langbilaðasta mynd sem ég hef séð í mörg ár. Það er ekki heil brú í einni einustu mínútu í henni. Og þó ég myndi ekki mæla með henni fyrir nokkurn mann, þá er hún eiginlega alveg frábær, á sama hátt og Buckaroo Banzai er frábær. Þetta eru ekki myndir sem maður elskar af því að þær segja góðar sögur, heldur af því að þær bjóða upp á aragrúa af frábærum augnablikum. Það er nú ekki í hvaða mynd sem er sem að The Rock (sem er ótrúlega góður hérna) mætir á svæðið og segir hluti eins og: ,,I’m a pimp… and pimps don’t commit suicide,„ eða það er gert stutt hlé á myndinni í miðjunni svo að Justin Timberlake geti hellt yfir sig bjór og mæmað með Killers lagi.

Næst þegar við hittumst er vídjókvöld. Double feature. Buckaroo Banzai og svo Southland Tales. Við munum þurfa áfengi og eiturlyf. Því meira af báðu því betra.

Southland Tales trailerinn